Grímur Helguson – akstursíþróttamaður ársins 2018

30.12.2018

Grímur er 57 ára gamall, fæddur 8. desember 1961.

Grímur byrjaði fyrir 4 árum síðan að stunda spyrnugreinar á mótorhjólum og hefur á þeim tíma tekið miklum framförum í sportinu.  Fyrir árið í ár var hann ákveðinn að ná öllum þeim titlum sem hann gæti í kvartmílu og sandspyrnu og var því öllu til tjaldað.

Hann keppti í tveimur flokkum í kvartmílu en aðeins náðist næg þátttaka í öðrum þeirra.  Í sandi keppti hann bæði á mótorhjólum og vélsleðum. Upp úr þessu náði hann tveimur Íslandsmeistaratitlum, einum í B flokki mótorhjóla í kvartmílu og hinum í 2 cyl flokki mótorhjóla í sandspyrnu.

Segðu mér aðeins frá sjálfum þér og hvers vegna þú byrjaðir í akstursíþróttum?

Ég er sveitamaður norðan úr þigeyjarsýslu og alinn upp í sveit hjá foreldrum og hjá móður ömmu og afa. Byrjaði snemma á sjó en var aldrei í neinum íþróttun annað en í skólanum að hnoðast í fótbolta með skólafélögum. Alltaf verið feitur og aldrei getað hlaupið en var ágætur í glímu og skák en bíla og hjóla áhuginn var þarna allan tímann og byrjaði með SS50cc eins og svo margir sem eru fæddir snemma á síðustu öld. Ég var eins og svo margir aðrir frá efnalítilli fjölskyldu og lífið snérist mest um að vinna, vinna meira og stofna fjölskyldu en þessi áhugi á hjólum/bílum var alltaf til staðar og ég átti allskonar hjól/bíla í gegnum tíðina en það er svo ekki fyrr en um 2008 sem þessi baktería tekur sig upp aftur á algjörlega óviðráðanlegu stigi.

Þannig vildi til að að ég fór með vini mínum til Kalla í KTM að versla einhverja hluti í torfæruhjól (EXC400) en þá stóð inni á gólfi hjá Kalla KTM 990 Dacar hjól sem ég gerði dóna tilboð í og Kalli tók tilboðinu sem átti alls ekki að verða.

Þarna 2008 stóð ég uppi með nýtt hjól og alveg dottin út úr öllu hjóla hitt og þetta með flott A og B ferðahjól. Svo ég kenni Kalla alfarið um þessa vitleysu í mér að vera böglast við að hanga á mótorhjóli kominn á efri ár.

Ég ferðaðist mikið til USA og þvældist með félaga mínum um þann hrepp á hjólum næstu árin – nokkrar ferðir á ári – og þar eignaðist ég mitt fyrsta BMW S1000rr hjól. Það var bara ást við fyrstu sýn og stendur enn.

Hvers vegna valdir þú spyrnur?

Ég ættlaði aldrei að keppa í spyrnugreinum, það bara æxlaðist þannig að ég átti gott hjól sem hentaði vel í þetta og góður vinur minn Guðmundur Guðlaugsson (Gummi Púki) var þá búinn að toppa sín tæki í spyrnukeppnum árið áður og við ákváðum að stilla upp og keppa 2014. Gummi að keyra og ég að halda utan um draslið og annað sem til þarf til að láta þetta ganga upp. Svo verður Gummi fyrir alvarlegu slysi eftir fyrstu keppnirnar og getur ekki keppt meira það árið.

Þá voru góð ráð dýr og já ég meina dýr því ég skreið á bak og keppti í stað Gumma eða segjum frekar hékk á hjólinu og hefði átt að fá refsingu fyrir að vera svona lengi að keyra þessa 400 m sem ¼ mílan er því það tók mig heilar 13,6 sec að fara brautina í fyrstu ferðinni.

En tímarnir hafa lagast og unnist nokkrir sigrar.

Hvernig þarf gott mótorhjól í spyrnu að vera?

Hérna geturðu sennilega fengið eins mörg svör og svarendurnir eru margir því sitt sýnist hverjum.

En ef við tökum einföldustu myndina fyrir þá sem eru að byrja eða langar að koma og prufa þá er sennilega besta leiðin að koma upp á braut og hitta alla rugludallana sem eru að stunda þetta sport og fá hjálp við að komast á stað því það þarf ekkert að sigra heiminn til að byrja, bara mæta á því sem hver og einn á og taka run framhaldið þróast svo með því sem að viðkomandi vill leggja á sig með æfingum og vinnu/peningum til að bæta keppnistækið nú eða bara mæta og keppa við sjálfan sig. Það er frábær aðferð við að byrja og hafa gaman af þessu. Þá erum við að tala um venjulegt hjól sem er notað til daglegs akstur á vegum úti og þarf ekkert að breyta.

Stock hjól þarf að setja vel upp með því að lækka það eins og regluverkið leyfir finna rétta gíringu sem hentar þyngd ökumanns svo er hægt að kaupa allskonar aukahluti eins og pústkerfi, auka vélartölvu og svo framvegis. þá er auðvitað þyngd og afl það sem skiptir mestu máli á vel upp settu hjóli en sama hversu mikið dót er keypt þá þarf að vera hægt að setja hjólið á bekk og stilla til að ná hámarks afli og fá allt dótið til að spila rétt saman.

Segðu mér aðeins frá markmiðum þínum og áherslum í keppni. Hvað þarf til að ná  árangri?

Markmiðið er að bæta persónulega þá tíma sem hafa náðst og næsta sumar verður ekkert öðruvísi með þau markmið.

Það sem þarf er tæki í þann flokk sem viðkomandi ætlar að keppa í og helling af tíma til að læra á tækið og æfa rassinn úr buxunum og taka þátt í öllum keppnum – sama hvað. Það vinnast ekki allar keppnir og það er bara allt í lagi að mæta og taka þátt án þess að vinna verðlaun. Þau koma með tíma og æfingu.

Getur þú gefið þeim sem eru að byrja einhver góð ráð?

Það eru tveir staðir á landinu þar sem hægt er að stunda þessa íþrótt en það er hjá KK í Hafnarfirði og hjá BA Akureyri.

Endilega koma á svæðið og vera óhrædd við að spyrja og spyrja meira. Við reynum að bjóða alla velkomna og erum alltaf til í að upplýsa og aðstoða eftir getu og tíma – alla þá sem hafa áhuga á að koma inn í þetta sport.

Bestu þakkir fyrir spjallið. Haltu áfram að gera góða hluti á brautinni og stuðningi við aðra keppendur!