Enduro dagurinn 2019

30.11.2019

Í dag hélt MSÍ sérstakan Enduro dag. Einar Sverrir Sigurðsson og Pétur Smárason kynntu stórar hugmyndir um að lífga uppá Enduro keppnirnar næsta sumar. Breyta reglum og verklagi og draga fleiri þátttakendur í sportið.

MSÍ var með sérstakan MX dag fyrir ári síðan, sem virkaði mjög vel og áhugi og mæting á Enduro daginn lofar mjög góðu um framhaldið.

Helsta áherslubreytingin er að Íslandsmótið verði ætlað öllum en ekki bara grjóthörðum nöglum.

Þannig verður bara keyrð ein umferð í 90 mínútur og reynt að hafa brautirnar þannig að bestu menn verða 12 til 15 mín að keyra hringinn. Í brautarlagningu verður reynt að nýta landslag sem best og hafa engar manngerðar hindranir í brautinni ásamt því að sleppa hjáleiðum.

Verðlaun verða aðeins fyrir fyrstu þrjú sæti dagsins í karla og kvennaflokk og eru það þau stig sem gilda til Íslandsmeistara.

Liðakeppni verði endurvakin á nýjum forsendum og notast við WESS stigagjöfina.

Viðræður eru í gangi um ný svæði og búið er að semja um Jaðar. Einnig eru Flúðir, Snæfellsnes og nokkur svæði á Suðurlandi í myndinni og um að gera að koma með hugmyndir um önnur.

Dagskráin verði keyrð hratt og skipulega og umgjörðin bætt.

Á lokahófi verði svo aukaverðlaun fyrir ýmislegt sniðugt.

Góður samhugur var á fundinum um að efla Enduro.

Á næstunni verða nýjar reglur mótaðar frekar og lagðar fyrir stjórn MSÍ.