Í sumar voru samþykkt á Alþingi ný Umferðarlög (Lög nr. 77 – 25. júní 2019) ásamt nýjum Lögum um ökutækjatryggingar (Lög nr. 30 – 15. maí 2019). Lögin taka bæði gildi 1. janúar 2020 og hafa töluverð áhrif á akstursíþróttir á Íslandi, bæði fyrir mótorhjól og bíla auk þess sem hjólreiðar bætast nú við.
Ljóst er að Samgönguráðuneyti þarf að gefa út nýja reglugerð sem kemur í stað 507/2007 með síðari breytingum. Sú vinna virðist ganga afar hægt.
Stjórn MSÍ hefur átt samstarf við stjórn AKÍS um að koma sjónarmiðum akstursíþrótta til skila í reglugerðinni auk þess sem ljóst er að tryggingamálin verða að skýrast, en þar gætu líka opnast nýir möguleikar.
Ábyrgðartrygging ökutækja verður áfram skylda, en sú trygging nær ekki til slysa á ökumanni. Þessi hluti trygginga er gjarnan um eða undir 10% af heildariðgjöldum mótorhjólatrygginga í dag.
Slysatrygging ökumanna á torfærutækjum dettur út sem skylda um áramótin. Þetta þýðir að keppendur þurfa sjálfir að huga að sínum eigin slysatryggingum, bæði í keppni, æfingum og leik.
Leiktæki
Notkun torfærutækja er nú flokkuð sem tómstundaiðja.
Lög um ökutækjatryggingar – 2019 nr. 30 15. maí
Önnur grein laganna undanskilur sérstaklega akstursíþróttir:
Lög þessi gilda um lögmæltar ökutækjatryggingar og skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem hlýst af notkun ökutækja.
Lögin gilda ekki í eftirfarandi tilvikum:
Ellefta grein laganna annarri málsgrein segir að torfærutæki séu undanþegin slysatryggingu ökumanns og eiganda sem fjallað er um í níundu grein.
Létt bifhjól í flokki I samkvæmt umferðarlögum eru undanþegin vátryggingarskyldu skv. 8.–10. gr.
Ökutæki sem eru eingöngu ætluð til aksturs utan vega eða í brautum og skráð eru sem torfærutæki eru undanþegin vátryggingarskyldu skv. 9. gr.
Í greinargerð með frumvarpinu er þessi undanþága skýrð með vísun í samfélagsleg sjónarmið:
Í 2. mgr. er það nýmæli að ökutæki sem eru skráð sem torfærutæki, og eingöngu ætluð til aksturs utan vega eða í brautum, eru undanþegin þeirri skyldu að hafa slysatryggingu ökumanns og eiganda. Samfélagsleg sjónarmið búa að baki slysatryggingu ökumanns og eðlilegt þykir að ökutæki sem notuð eru til tómstundaiðkunar séu þar ekki meðtalin. Slysatíðni í akstri torfærutækja sem ætluð eru til íþróttaiðkunar er há og þykir eðlilegra að eigendur slíkra ökutækja vátryggi sérstaklega með frjálsri slysatryggingu þá áhættu fyrir ökumann sem fylgir notkun ökutækjanna enda um tómstundaiðkun að ræða. Hver og einn getur þá tekið ákvörðun um hvaða vátrygging hentar þeim og þá áhættu sem þeir kjósa að taka.
Mikilvægt er að mótorhjólaeigendur átti sig á þessari breytingu. Tryggingarfélög eru nú að setja saman mögulegar tryggingar, en frá áramótum þurfa menn að meta sjálfir þá áhættu sem þeir vilja taka og tryggja sig í samræmi við það fyrir mögulegum slysum, hugsanlega með frístundatryggingu eða viðaukum við aðrar tryggingar, td. heimilistryggingu.