Dómur dómstóls Mótorhjóla- og vélsleðaíþróttasambands Íslands í máli nr. 1/2011
Þann 28.06.2011 er dómþing dómsstóls MSÍ sett og uppkveðinn svohljóðandi dómur í máli nr. 1/2011, Ragnar Ingi Stefánsson gegn Einari Sverri Sigurðssyni;
Málið var höfðað með ódagsettri kæru Ragnars Inga Stefánssonar, sem móttekin var af Karli Gunnlaugssyni fyrir hönd MSÍ, þann 07.06.2011. Ekki voru lögð fram frekari gögn af hálfu kæranda. Kærði, Einar Sverrir Sigurðsson, keppnisstjóri 1. umferðar Íslandsmótsins í mótocrossi, skilaði greinargerð af sinni hálfu.
Dómstóll MSÍ tók málið til meðferðar í kjölfarið og tilkynnti málsaðilum um tilhögun málsmeðferðar þann 22.07.2011 en þá var jafnframt ákveðið að málið yrði flutt skriflega. Í ljósi þess að ágreiningur er um málsatvik var aðilum boðið að leggja fram skriflegar vitnaskýrslur. Engar slíkar hafa borist dómnum.
Dómurinn hefur kynnt sér fyrirliggjandi málsgögn og málavexti eins og þeim er lýst af málsaðilum. Ekki er ágreiningur um þá staðreynd að kærandi málsins virti viðvörunarflögg keppnisstjóra að vettugi eftir slys sem varð í brautinni. Þá er jafnframt staðfest að kærandi sætti sig ekki við þá ákvörðun keppnisstjóra að veita honum svart flagg vegna þessa framferðis. Sú hegðun leiddi til þess að kæranda var veitt rautt spjald.
Það er mat dómsins að öryggisreglur, eins og notkun á gulum flöggum þegar hætta skapast, sé mikilvægur þáttur í að tryggja öryggi allra keppanda þegar slys ber að höndum. Að mati dómsins var háttsemi kæranda til þess fallin að auka slysahættu og skiptir huglægt mat kæranda sjálfs á aðstæðum engu máli í þessu samhengi. Þar af leiðandi er það mat dómsins að ákvörðun keppnisstjóra að víta kæranda með því að veita honum svart flagg og útiloka hann þannig frá frekari keppni hafi verið réttmæt ákvörðun.
Mótbárur kæranda í þá veru að hendur keppnisstjóra hafi verið bundnar af ákvæði 11.8.4 í keppnisreglum mótocross hvað varðar þyngd refsingar eru haldlausar enda eru sérstök refsiákvæði bæði í flaggreglum og keppnisreglum FIM sem eiga að jöfnu við þegar til þess kemur að ákvarða refsingu vegna hegðunarbrota keppanda.
Þá liggur jafnframt fyrir að kærandi hafi ekki unað ákvörðun keppnisstjóra og haldið uppi mótmælum með þrasi og málalengingum löngu eftir að keppni var lokið. Vegna þessa veitti keppnisstjóri kæranda rautt spjald. Kemur þá til álita hvort refsa beri kæranda sérstaklega vegna þessa og er það mat dómsins að fullt tillefni sé til þess. Keppendum ber að sýna keppnisstjórn allri og öðrum starfsmönnum keppni, virðingu og tillitssemi, vegna allra þeirra starfa sem unnin eru í þágu þeirra sjálfra á keppnisstað. Ekki verður unað við það að keppendur viðhafi munnsöfnuð og mótmæli við þeim ákvörðunum sem keppnisstjórn tekur á keppnisstað. Vegna þessa er það niðurstaða dómsins að svipta kæranda öllum stigum sem hann hlaut í keppnisflokknum “MX-Open” í fyrstu umferð Íslandsmóts í mótocrossi á Sauðárkróki þann 04.06.2011.
Öllum kröfum kæranda er hafnað. Ákvörðun kærða um að vísa kæranda úr keppni vegna brots á flaggreglum er staðfest. Þá er kærandi sviptur öllum stigum sem hann hlaut í keppnisflokknum “MX-Open” í 1. umferð Íslandsmóts í mótocrossi þann 04.06.2011.
Þannig fram farið
Jóhann Halldórsson dómsformaður
Þorsteinn Hjaltason meðdómari
Helgi Jóhannesson meðdómari

