Um liðna helgi sat ég undirritaður námskeið í keppnisstjórnun hjá FIM / CMS í Hollandi sem haldið var á íþróttahótelinu Papendal sem er í eigu íþróttasambands Hollands.
Forseti CMS (Motocross deildin innan FIM) Wolfgang Srb sá um námskeiðið sem haldið var í samvinnu við Hollenska mótorhjólasambandið. Námskeiðið sátu alls 17 manns frá Hollandi, Belgíu, Danmörku og Íslandi.
Námskeið þessi eru haldin á 2 – 3 ára fresti á hverjum stað og farið er í gegnum allar keppnisgreinar sem heyra undir CMS, Motocrss, Supermoto, Sidecar og Snocross. Farið var ítarlega í gegnum allar reglur sem viðkoma ofangreindum keppnisgreinum og framkvæmd þeirra. Einnig var hópnum skipt upp í vinnuhópa sem keyrðu tilbúna keppni með hinum ýmsu vandamálum sem þurfti að leysa. Í lok námskeiðisins voru svo 45 spurninga próf með bókum og 30 spurninga próf án bóka. Þeir aðilar sem náðu prófunum fá svo FIM keppnisstjórnarréttindi til næstu 3 ára og eru hæfir til þess að taka að sér keppnisstjórn á heismsmeistaramótum og landsmeistaramótum.
Það stendur svo til að MSÍ standi fyrir 2 námskeiðum í keppnisstjórn í janúar, 1 á Akureyri og 1 í Reykjavík fyrir þá aðila sem koma að keppnisstjórn á Íslandsmesitaramótum MSÍ.
kveðja,
Karl Gunnlaugsson, formaður MSÍ.

