Frábær keppni í Sólbrekku lokið

8.8.2009

4. umferð Íslandsmótsins í Moto-Cross fór fram í dag laugardaginn 8. ágúst á akstursíþróttasvæði VÍR við Sólbrekku. Rúmlega 90 keppendur mættu til leiks og var brautin hreint út sagt frábær. Öll umgjörð keppninnar var góð, starfsmenn og flaggarar stóðu sig vel og var keppnin keyrð á 100% réttum tíma allan daginn, VÍR og starfsmenn keppninnar eiga sannanlega heiður skilin fyrir gott starf.

Hörkubarátta var í flestum flokkum en maður dagsins var klárlega Eyþór Reynisson #11 sem endaði í 2. sæti í MX-Open eftir æðislegan akstur í 2. og 3. moto. Aron Ómarsson #66 hélt uppteknum hætti og sigraði á fullu húsi stiga en Einar Sigurðarson #4 endaði þriðji. Gunnlaugur Karlsson #111 varð fjórði og Kári Jónsson #46 endaði fimmti.

Öll úrslit dagsins munu birtast hér á msisport.is á næstu klukkutímum.

5. og síðasta umferð Íslandsmótsins í Moto-Cross fer fram á akstursíþróttasvæði VÍK laugardaginn 22. ágúst.

Mánudaginn 10. ágúst mun stjórn MSÍ tilkynna landsliðið og landsliðseinvald sem mun halda til keppni á Moto-Cross of Nation sem fer fram 3. og 4. október á Ítalíu.