Keppendur í Íslandsmótaröð MSÍ 2009 athugið að Moto-Cross reglur og dagskrá 2008 gilda fyrir komandi keppnistímabil. Það er þó rétt að benda keppendum á að MX-1 heitir nú MX Open í skráningarkerfinu. Einnig er kominn inn nýr flokkur “B 40+ flokkur” en hann var rangt skráður í skráningarkerfinu, þessi flokkur er fyrir 40 ára og eldri keppendur og verður keyrður með B flokk í sumar, til þess að flokkurinn sé virkur þarf að lágmarki 5 keppendur.
Keppendum og aðstandendum þeirra er bent á að prenta út reglur og dagskrá sem er að finna undir “Reglur” hér á síðunni og hafa með sér á hverja keppni, það er á ábyrgð keppenda að vera tilbúnir á þeim tímum sem segir í dagskránni. Keppnisstjórn í hverju móti leytast til að halda dagskrá, aldrei er farið fram úr dagskrá en ófyrirséðar uppákomar geta valdið töfum.
Rétt er að minna keppendur á að mæta með keppnishjól rétt merkt sínu keppnisnúmeri með réttum litagrunni eins og reglur kveða á um. Einnig er rétt að árétta reglur um hámarks hávaða keppnishjóla sem er 98 dB, keppnishjól verða hávaðamæld í skoðun fyrir keppnir ársins 2009, þeir keppendur / keppnishjól sem eru ofan við hávaðamörk geta átt á hættu að fá ekki skoðun / rásleyfi.
Keppendur sem taka þátt í Íslandsmótaröðum MSÍ 2009 þurfa að vera félagar í einhverju af aðildarfélögum MSÍ og þurfa að hafa greitt félagsgjöld fyrir árið 2009 til þess að fá að keppa. Keppandi sem hefur ekki greitt félagsgjöld 2009 til síns aðildarfélags en sleppur í gegn um skoðun getur verið feldur út úr Íslandsmótaröð ef upp kemst.
Aðstoðarmenn keppanda eru á hans ábyrgð á keppnissvæðum, MUNIÐ að ganga vel um keppnissvæðin og hirða upp drasl og annað sem til fellur. Sýnið ávallt öllum starfsmönnum og öðrum keppendum kurteisi og komið fram eins og þið viljið að komið sé fram við ykkur.
Við erum öll að stefna sömu leið, höfum gaman af komandi sumri, njótið vel.
Stjórn MSÍ

