Samantekt Hjartar L. Jónssonar um mótorhjólaiðnaðinn 2008

18.5.2009

                       Mótorhjólaiðnaður 2008.

    Frá  og með árinu 2005 hef ég tekið saman gróflega tölur um notkun og gjöld sem mótorhjólafólk greiðir í ríkissjóð. Eins og áður er skjalinu skipt í 5 mismunandi liði, en fjórhjól hafa verið færð með torfæruhjólum:    

1: Torfærumótorhjólaflokk,  2: götuhjólaflokk,   3: mótorhjólakeppnisflokk,  4: mótorhjóla-ferðamannaflokk, 5: nýinnflutt hjól 2008.  

    Til er greiningarflokkur hjá Hagstofu Íslands sem heitir: Vélhjólasala-Viðgerðirvélhjóla og Varahlutasala , það sem virðist vanta inn í þessa útreikninga hjá Hagstofunni við fyrstu sýn eru þeir liðir í rekstri mótorhjóla sem mest er skattlagður sem eru  bensín,  mótorhjóladekk sem er stór liður í rekstri mótorhjóla (að meðaltali endist afturdekk undir torfæruhjólum á bilinu 800-1400 km. og á götuhjólum 4000-6000km), hlífðarfatnaður er mjög hátt skattlagður og er nú bundið í lög að klæðast hlífðarfatnaði í almennri umferð. Hagstofan tekur væntanlega þessa þrjá liði (bensín, dekk og hlífðarfatnað) með hagtölum í öðrum liðum hjá sér, en ég tek þessa liði með og reyni að fá sanngjarnt meðaltal út úr því þessir liðir eru hluti af mótorhjólarekstri .

   Á síðasta ári var bensínverð mjög rokkandi, en meðalverð ársins 2008 var mjög nálægt 150 krónur og fær ríkið 78 krónur af þeirri upphæð.  Það er því ljóst að ef teknir eru 10 lítrar af bensíni sem notaðir eru á hjólið í venjulega æfingu eða rúnt fær ríkið af því 780 krónur.

Kreppan, bankahrunið og allur sá pakki skall ekki á fyrr en í lok ársins og var hjólavertíðin því næstum búin þegar skelfingin reið yfir, en samkvæmt tölum frá U.S. var fjölgunin á skráningu mótorhjóla 2008 um 2951 hjól.  Umboðin fengu samt snemma árs að finna fyrir samdrætti í sölu á nýjum hjólum og voru þau flest með umframlager af hjólim, en nokkur dæmi voru um að umboðin seldu hjólin úr landi á haustdögum, en samkvæmt innflutningstölum voru flutt inn mótorhjól og fjórhjól 2910 og flutt úr landi 223 mótorhjól 2008. Mismunur á tölum á innflutningi hjóla og skráningu má eflaust rekja til þess að umboðin áttu töluvert magn hjóla á lager um áramótin 2007 og 2008.

  1. Torfæruflokkur (fjórhjól, tvíhjól): Í þennan flokk eru nú sett inn fjórhjól og meðalnotkun þeirra, en ekki innflutningur sem er í flokki 5 eins og áður. Þrátt fyrir allt krepputal þá var gífuleg fjölgun í þessum flokki á síðasta ári (hér eru ekki motocross-keppnismenn, en hjólin sem eru í þessum flokki eru á rauðum númerum og því ekki leyfð á öðrum stöðum en í brautum og á einkalandi og þarf því að koma hjólunum á staðinn með bíl /kerru ), en  fjölgunin var  2016 torfæruskráð hjól á síðasta ári (þar af um 720 tvíhjól). Iðkendur jafn margir og skráð torfærutæki sem eru  7566, en meðalnotkun torfæruhjóla er um 3000 km. á ári. Meðaleyðsla er um 7 lítrar á 100 km. Þetta gerir meðaltal 210 lítrar af bensíni (það er bundið í lög að 32 krónur og 90 aurar af hverjum bensínlíter á að fara í vegagerð og vegabætur, en samkvæmt tölunum er torfærufólk þá að borga alls 52,273,494 í vegabætur á síðasta ári). Að meðaltali eru notuð 2-3 afturdekk á ári og 1-2 framdekk, í varahluti og olíuvörur fer að jafnaði 30,000 hjá hverjum (tannhjól,keðja, bremsuklossar og fl.) . Viðhald á mótorhjólagalla á hverju ári 30,000.  Bensín á bílinn sem dregur hjólið á þann stað sem ekið er frá 100 lítrar á ári. Samtals í ríkissjóð (virðisaukaskattur,tollur og bensíngjald) 294,909,840.
  2. Götuhjólaflokkur: Um síðustu áramót voru 9009 bifhjól í landinu og ef reiknað er með því að meðalakstur götuhjóls árlega sé 3000 km og eyðslan sé 7 lítrar á hverja 100km ekna eða um 210 lítrar af bensíni á ári. Viðhaldskostnaður sé 40.000 í olíu, bóni, dekk og fl. en galla og aukahlutakaup sé um 30,000. Samtals fyrir notkun í ríkiskassann (tollur,bensíngjald og virðisaukaskattur) 302,071,770.
  3. Mótorhjólakeppnisflokkur: Þessi flokkur er reiknaður þannig að haldnar eru 10 aðal keppnir, keppandafjöldi er jafnaður út með því að hafa meðaltal 110 keppendur (þess eru dæmi um að keppendur í keppni hafi farið niður í um 80 og upp í 130, en til að auðvelda hlutina þá tek ég meðaltalið 110 keppendur og 10 keppnir þrátt fyrir að keppnirnar séu nær 20 en 10 að ísaksturskeppnunum meðtöldum). Í hverja keppni eru notaðir 10 l. af bensíni, en til að geta keppt þarf keppandinn að æfa sig mikið og notar á hjólið 90 lítra til viðbótar og jafnast þá að keppnirnar eru 10X100l, en til að komast á æfingar og keppnir þarf að draga hjólið á báða staðina og notar bíllinn 200 l. að jafnaði á hverja keppni + æfingar. Þá lítur jafnan út svona sem reiknað er eftir 10X110X300X78=  25,740,000 . Keppnismenn fara að jafnaði með í galla og varahluti, líkamsræktarkort og annann kostnað við æfingar ásamt því að mjög margir fara í sérstakar æfingarbúðir erlendis og má gera ráð fyrir að hver keppnismaður fari með um 300,000 á ári í þessa liði. Samtals borga keppnismenn í mótorhjólakeppnum þá fyrir það eitt að keppa fyrir utan kaup á hjólinu (tollur,virðisaukaskattur og bensíngjald) 32,740,000. 

Allar tölur í þessum flokki eru að sögn þeirra sem stunda keppnissport  töluvert of lágar og mætti allt að því tvöfalda eða þrefalda allar tölur.

  1.  Ferðamannaflokkur: Árlega koma um 1000 mótorhjól til landsins sem ferðamenn og aka að jafnaði um 2500km á meðan þeir dvelja á landinu. Í skatt af bensíni borga þeir 13,650,000. miðað við 7l.  Í þennan lið er ekki áætluð önnur skattlagning á ferðamenn sem kaupa ýmislegt annað en bensín  er hann stórlega vantalinn því reiknast á þennan flokk bara bensínskattur kr. 13,650,000.
  2. Nýinnflutt mótorhjól og fjórhjól 2008.: Alls voru flutt inn 2910 fjór og tvíhjól og að frádregnum þessum 223 hjólum sem flutt voru aftur úr landi þá er talan 2687 stykki og voru greidd í ríkissjóð af þessum mótorhjólum í vörugjöld kr. 1,169,660,407 (tollur) og af þessum sömu hjólum var greitt í virðisaukaskatt heldur hærri upphæð  1,403,592,488 miðað við meðalálagningu (fengnar voru tölur hjá þrem mótorhjólaumboðum og meðaltal tekið út frá því sem er 1,2) má þá margfalda vörugjöldin með 1,2 til að fá virðisaukaskatt af hjólunum. Þar sem að mótorhjólin voru 2687 þurftu mótorhjólamenn jafn marga  mótorhjólagalla og ef gert er ráð fyrir að meðalverð mótorhjólagalla sé 100,000 og ríkið fær í tolla og virðisaukaskatt af hverjum galla a.m.k. 30,000, þá gerir þetta 2687 gallar sinnum 30.000 =  80,610,000.  Opinber gjöld af 2687 hjólum og göllum er samanlagt kr. 2,653,862,895.

                               

Þessir 6 liðir (reyndar 5 flokkar) gera því alls til ríkissins í krónum 3,297,234,505.

Þrátt fyrir efnahagshrunið 2008 þá fjölgaði mikið í fjórhjóla og bifhjólaflota landsmanna, en alls fjölgaði torfæruskráðum hjólum og fjórhjólum um 2016 frá árinu 2007, en fjölgun á skellinöðrum og stórum bifhjólum fjölgaði á sama tíma um 935 stykki.

Á öllu landinu eru skráð bifhjól alls         9009 stór hjól og skellinöðrur.

Torfæru skráð fjórhjól og mótorhjól eru 7566 um síðustu áramót.

Samtals voru þá skráð                             16.575   um  áramót 2008 og 2009.

Ef lagðar eru saman tölurnar á samantekt minni síðustu fjórum samantektum (2005, 6, 7 og 8) þá er samanlögð tala sem mótorhjólafólk hefur borgað í skatta í ríkissjóð 11,8 milljarðar. Þá er bara að bera þá tölu við stóra framkvæmd á vegum ríkisins og segja:  

                      “ÞETTA ER GREITT AF MÓTORHJÓLAFÓLKI”.

 

      Einnig er skuggalegt að þeir 110 einstaklingar sem stunda motocross og enduro sem íþrótt (liður no 3 í greinargerðinni) hafi borgað á fjórum árum yfir 110 milljónir í skatt fyrir það eitt að vera íþróttamenn og er þeirra flokkur reiknaður án mótorhjóls (kaup og endurnýjun á mótorhjóli er í sér lið) og er því þeirra skattur mest í bensíni og dekkjaskatti þetta gerir rúma milljón á hvern keppanda á fjórum árum.

 

                                              Hjörtur L. Jónsson 15.05.2009.

 

P.S. Verð á dekkjum og smurolíu hefur hækkað um nær 100% á síðustu tveim árum, en ég tek ekki þá hækkun inn í varahlutapakkann að svo komnu máli, en ástæðan er mikil samkeppni á varahlutamarkaði síðustu tvö ár. Einnig spilar inn í þetta tilboð og útsölur hjá varahlutabúðum, meiningin hjá mér er að finna út “vísitölu-mótorhjóla-varahluta-pakkann” í framtíðinni (rétt eins og innkaupakerru heimilisins). H.L.J.