Miðnætur 6 tíma keppni í Bolaöldu 20. júní.

4.5.2009

Þá er komið að því að skráning í Miðnæturkeppnina – (Bolaalda Mid-Night Offroad Run 2009) hefjist fljótlega. Keppt verður sem fyrr í 6 tíma þolaksturskeppni á lengsta degi ársins.

Keppnin sem haldin var í fyrsta sinn á síðasta ári fékk frábærar viðtökur en hátt í 300 ökumenn tóku þátt í keppninni.

Keppnin hefst stundvíslega kl. 18.01 og lýkur ekki fyrr en 6 tímum síðar kl. 00.01 eftir miðnætti 21. júní, á lengstu nótt ársins.

Skráning í keppnina hefst á miðnætti (00.00) fimmtudagskvöldið 7. maí á www.motocross.is.

Ath. að fyrstir koma – fyrstir fá því raðað verður á startlínu eftir skráningartíma ökumanna/liða!

Það er því vissara að stilla vekjaraklukkuna og stilla sér upp við tölvuna kl. 23.59 fimmtudagskvöldið 7. maí

 

Keppnisgjald er 5.000,- kr. á mann og menn verða að vera skráðir félagar í akstursíþróttafélagi þ.e. VÍK eða öðru félagi innan MSÍ og hafa greitt félagsgjald fyrir 2009.

Brautin í fyrra bauð upp á frábæra keppni. Markmiðið með brautarlagningunni nú er að bjóða bæði krefjandi og skemmtilega slóða sem þó henta öllum. Keppnin er hins vegar löng og margt sem getur komið upp á 6 klukkustundum. Á síðasta ári var frábært veður sem gerði keppnina einstaklega eftirminnilega. Við höfum þegar pantað gott veður þetta kvöld hjá Veðurstofunni.

Keppt verður í flokkum karla og kvenna auk þess sem blönduð lið geta líka tekið þátt í eins, tveggja og þriggja manna liðum. Um daginn verður haldin keppni fyrir yngstu ökumennina í 85/150 flokki og 125/250 flokki.

Öllum umboðum og þjónustuaðilum stendur til boða að vera með á sýningu á vörum og hjólum og tengdum vörum, auk þess sem um kvöldið verður boðið upp dúndrandi tónlist og fleiri skemmtiatriði.

Í lok keppninnar verður keppendum og viðstöddum boðið upp á hressingu a la chef Katoom. Verðlaunaafhending verður kl. 1.00 um nóttina.

Stjórn VÍK