Nú styttist óðum í að keppnishald í Moto-Cross og Enduro fari í hönd og vonandi að aðildarfélög MSÍ sjái sér fært að halda bikarmót strax á vordögum.
Það verður vonandi að við sjáum sambærilegan fjölda keppanda og undanfarin ár þrátt fyrir þær þrengingar sem nú herja á okkur. Klárlega er framundan tími til að ferðast innanlands og upplagt fyrir keppendur að drífa vini og fjölskyldur með sér á keppnir sumarsins.
Undanfarin ár hefur gengið ílla að manna margar keppnir, þá aðallega Moto-Cross keppnir þar sem 10-15 manns þarf að lágmarki til þess að flagga í hverju “moto” og eða æfingu. Einna verst hefur þetta þó verið hjá stærsta félaginu VÍK en klárlega myndi það létta undir með öllum félögum ef fleiri fengjust til þess að taka að sér að flagga í MX keppnum. Ein af þeim hugmyndum sem ræddar hafa verið er að hækka keppnisgjöld til þess að geta staðið undir kostnaði við að ráða fólk í þessar stöður. Þetta er klárlega einfaldasta leiðin en setur þó auknar byrgðar á keppendur fjárhagslega og er það eitthvað sem við viljum helst ekki sjá um þessar mundir. Önnur hugmynd sem rædd hefur verið er að keppendur skaffi flaggari í 2-3 moto í hverri keppni þannig að allir keppendur leggji sitt að mörkum, klárlega góð leið en krefst mikillar vinnu við utanumhald og skipulag.
Hvaða leið verður farinn hefur ekki verið ákveðið innan stjórnar MSÍ þegar þetta er skrifað en ég hvet keppendur og aðstandendur þeirra til þess að hugleiða þessi mál vel, við viljum jú öll sjá öryggi keppanda sem best borgið og þar spilar stóran þátt vel mönnuð keppnisbraut af flöggurum. Það verða allir sem einn að leggja sitt að mörkum til þess að koma þessum hlutum í viðunandi horf, enginn keppandi er þar undanskilinn. Með samhentu átaki getum við gert þetta mjög auðvelt ef allir taka þátt og engin skorast undan.
Allt sportið okkar sleðar og hjól er keyrt áfram af sjálfboðamennsku og óeigingjörnu starfi fjölda frábærra einstaklinga og félaga um allt land, við skulum ekki taka því sem sjálfgefnu.
Brettum upp ermar og tökum til starfa með okkar félögum og bjóðum fram krafta okkar þegar kemur að keppnum sumarsins, þetta er lítil vinna ef allir leggja til “smá” vinnu.
með kveðju,
Karl Gunnlaugsson
Formaður MSÍ

