1. umferð Íslandsmótsins í Ís-Cross var haldin af AM á Mývatni laugardaginn 17. janúar. Öll vinna og framkvæmd við mótið var til fyrirmyndar. Úrslit voru kominn á netið strax um kvöldið og strax á mánudagsmorgun barst stjórn MSÍ uppgjör fyrir keppnina á excel skjali, fjöldi keppanda, flokkaskipting, nafn og bankareikningur aðildarfélags ásamt upplýsingum um tímatökustjóra.
Öll þessi vinnubrögð eru til mikillar fyrirmyndar og auðveldar stjórn MSÍ og gjaldkera mikla vinnu. Einnig er þetta stórt mál fyrir viðeigandi aðildarfélag að fá uppgerða keppni strax að henni lokinni. Gjalkeri MSÍ gat strax á mánudeginum gengið frá greiðslum til AM og tímatökustjóra sem hefur oft dregist á langinn vegna ónógra gagna.
Það er á ábyrgð hvers aðildarfélags í samráði við tímatökustjóra að ganga frá uppgjöri til stjórnar MSÍ og er að því loknu hægt að greiða aðildarfélagi strax að lokinni keppni.
MSÍ samþykkti 6 ný keppnisnúmer fyrir þetta mót og er það ánægjuefni að sjá nýliðun í sportinu. Fjöldi keppanda frá Reykjavík og nágrenni mætti á mótið og er það einnig ánægjulegt. 42 keppendur mættu til leiks og er það svipað og í 3. og síðustu umferð 2008 þannig að það má reikna með að við sjáum yfir 50 keppendur næst á Mývatni 14. febrúar.
Engin vandræði urðu með skráningu á mótið en skráningu mun ljúka um miðnætti á þriðjudögum fyrir öll Íslandsmeistaramót ársins 2009. Þegar skráningu er lokið er henni lokið. Keppendur sem ekki hafa skráð sig áður í mót á árinu er bent á að gera það tímanlega ef einhver vandræði koma upp þannig að það sé tími til lagfæringa. Ekki verður tekið við kvörtunum eftir að tímafrestur er útrunnin og skráningar sem framkvæmdar eru á síðustu stundu og lenda í vandræðum verður ekki svarað.
Þetta hljómar ílla en keppendur eru minntir á að allar skráningar fyrir árið 2009 hafa verið opnaðar og það er engin ástæða til þess að bíða alltaf þangað til klukkan er 5 mínútur í lokun.
kveðja,
Stjórn MSÍ

