“Main Jettinn” í baði með Stefáni Gunnarssyni á Mývatni

11.11.2008

“Main Jettinn”  tók hús á Stefáni Gunnarssyni baðverði, stjórnarmanni í MSÍ og akstursíþrótta pabba og spurði hann um keppnistímabilið 2008 og hvað væri framundan.

Til hamingju með börnin (Jónas & Signý akstursíþróttamaður og kona ársins 2008) og hvernig stóð fjölskyldan að undirbúningi fyrir keppnistímabilið ?

Takk fyrir það. Það voru strax í fyrrahaust sett háleit markmið og bæði Jónas og Signý settu stefnuna á íslandsmeistaratitla fyrir 2008. Jónas setti sig í samband við sænska heimsmeistarann í snocrossi Peter Ericson og fór út til Svíþjóðar í ársbyrjun og var við æfingar þar í rúman mánuð. Kom svo heim í fyrsta mót í febrúar og hafði nokkra yfirburði í meistaraflokknum í allan vetur. Signý setti sig hins vegar í samband við Garry Wright og fór að ég held átta sinnum til Bretlands síðasta vetur í æfingabúðir. Mætti svo mjög sterk til leiks síðasta sumar og náði tiltlinum eftir harða baráttu.

Hvað stendur uppúr eftir keppnistímabilið 2008 ?

Ánægjan af því að vera með börnunum í því sem þeim finnst skemmtilegast og sjá þau ná þessum frábæra árangri.

Nú hefur þú sjálfur verið að keppa í sumar, hvaða keppni fannst þér skemmtilegust og afhverju ?

Ég verð að segja að hér heima fannst mér 6 tíma endúróið í Bolöldu afar skemmtilegt, en ég lét mig hafa það að keppa einn í henni. Hins vegar var hápunktur ársins þátttakan í Gotland Grand National í Svíþjóð núna í nóvemberbyrjun. 2300 keppendur, rigning, drulla, klappir, trjárætur, ógeð og allt í botni í rúma 3 tíma – hvað gæti verið skemmtilegra ?

Hvaða keppnisgrein MSÍ er í mestu uppáhaldi hjá þér og afhverju ?

Hvað mig sjálfan varðar er það endúróið, einfaldlega af því að þar verð ég mér yfirleitt ekki til skammar. Hins vegar eru motocrossið og snocrossið skemmtilegri áhorfendasport, að ógleymdu íscrossinu.

Hvaða breytingar viltu sjá á keppnistímabilinu 2009 ?

Ég er bara nokkuð ánægður með það keppnisdagatal sem sett hefur verið fram. Lýst vel á að við sendum lið á Six Days í enduró.

Ertu með einhver skilaboð til foreldra keppenda ?

Passa að krakkarnir séu með hausinn á öxlunum og séu með báða fætur á jörðinni þó að vel gangi. Benda þeim á leiðir til að sigrast á mótlæti ef illa gengur, því í öllu mótlæti felast tækifæri.

Mesta akstursíþróttahetjan ?

Michael Schumacher – það kemur aldrei annar eins og hann.
 

Reykt Húsavíkur hangikjöt eða sveittur beikon borgari í Ásbyrgi ?

Kofareykt Mývetnskt sauðakjöt, en svo er hammari í Ásbyrgi ómissandi í endúrótúrnum.

Heitur pottur eða jarðböð ?

Jarðböðin við Mývatn, ekki spurning.

Bolalda eða Gotland ?

Gotland, ég ætla aftur að ári ekki spurning. Elsti keppandinn í ár var 72 ára þannig að það er aldrei of seint.

Besta fríið ?

Góð gönguskíðaferð um hálendið að vetri eða gönguferð um Hornstrandir að sumri.

Hvað á að gera um jólin ?

Borða rjúpur og eitthvað voða hefbundið, en það verður örugglega hjólað íscross á milli jóla og nýárs eins og undanfarin ár.

Eitthvað að lokum sem brennur á þér ?

Þú getur grætt og tapað á því að fjárfesta í hlutabréfum, en þú getur bara grætt á því að fjárfesta í börnunum þínum.

“Main Jettinn” þakkar “Baðverðinu” gott bað og skemmtileg svör.

Næst tekur “Main Jettinn” hús á Heimir Barðasyni sem varð Íslandsmeistari í Moto-Cross á síðustu öld og spyr hann um “tímana tvenna”