Mótorhjóla & snjósleðaíþróttasamband Íslands hefur valið aksturíþróttafólk ársins 2016 og urðu þau Ingvi Björn Birgisson og Gyða Dögg Heiðarsdóttir fyrir valinu.
Gyða Dögg Heiðarsdóttir er akstursíþróttakona MSÍ árið 2016 en hún var einnig útnefnd valin akstursíþróttakona MSÍ á síðasta ári. Gyða Dögg er Íslandsmeistari kvenna í motocrossi 2016 annað árið í röð eftir gríðarlega baráttu við sína helstu keppinauta. Hún hefur æft af kappi undanfarin ár og tekið miklum framförum í sinni grein.
Ingvi Björn Birgisson bar höfuð og herðar yfir aðra keppendur í mótorhjólaíþróttum á árinu og er útnefndur akstursíþróttamaður MSÍ annað árið í röð. Ingvi Björn tryggði sér tvo Íslandsmeistaratitla í motocrossi á árinu; annars vegar í MxOpen, sem er opinn flokkur þar sem flestir keppa á hjólum með vélarstærðum 450 rúmsentimetra eða stærri, og hins vegar í MX2 flokki, þar sem vélarstærð takmarkast við 250 rúmsentimetra. Ingvi Björn varð einnig Íslandsmeistari í enduro eða þolakstri en hann sigraði allar sínar keppnir með talsverðum yfirburðum í ár.
Ingvi Björn og Gyða Dögg verða fulltrúar MSÍ á hófi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Samtaka íþróttafréttamanna í tengslum við kjör Íþróttamanns ársins 2016 þann 29. desember í Hörpu.

