Dómstóll MSÍ / dómur 1/2013

29.8.2013
Dómur dómstóls Mótorhjóla- og vélsleðaíþróttasambands Íslands í máli nr. 1/2013
Þann 13. ágúst 2013 er dómþing dómsstóls MSÍ sett og uppkveðinn svohljóðandi dómur í máli nr. 1/2013. Stjórn MSÍ skaut málinu til dómstólsins vegna meintra agavandamála Hinriks Inga Óskarssonar, kt. XXXXXX-XXXX.
Kæruefni og kröfugerð:
Um er að ræða atvik sem eiga að hafa átt sér stað á íslandsmótinu 8. júní 2013 á Selfossi. Mótshaldarar sendu Stjórn MSÍ atvikalýsingu. Í skýrslu mótshaldara kemur fram að Hinrik hafi orðið fyrir slysi og síðan segir m.a. í skýrslunni:
1. „ … óskuðum strax eftir sjúkrabíl fyrir hann og lækni til að skoða hann. Hinrik var ekki mjög samvinnuþýður við sjúkraliða og keppnistjóra að láta skoða sig og lét hann þung orð falla um mótshaldara sem ekki er hægt að hafa eftir.“
2. „ … lögreglan hefði verið að reyna að fá hann til að tala við sig eftir að hann flaug út af gámnum. Þá hefði Hinrik brugðist illa við og gargað einhver ókvæðisorð að lögreglunni og sjúkraflutningamönnum.“
3. „ … svo kom að því að Hinrik festi sig illa og við það má segja að hann hafi brjálast. Hann gat ekki losað sig og endaði á því að taka af sér hjálminn henda honum frá sér þar sem hjálmurinn endaði í aksturlínu, lagðist svo hjálmlaus í miðja braut þegar 2 keppendur komu akandi að og skapaði þannig hættu, sér og öðrum keppendum. Ekki nóg með það heldur gargaði hann eitthvað á áhorfendur sendi þeim puttann labbaði svo út úr braut og sleit öryggisborða í leiðinni.“
4. „Þegar kom svo að seinna motoinu stoppaði ég hann áður en mönnum var hleypt á línu og sagði honum að í ljósi þess, hvernig hann hefði hagað sér ætlaði ég ekki að hleypa honum í seinna motoið. Og tjáði honum að svona óíþróttamannslega hegðun myndum við ekki líða. Hann væri fyrirmynd fyrir aðra vegna þess að hann væri toppökumaður og að þetta gengi ekki svona og bað ég hann því um að yfirgefa pyttinn. Hinrik var ekki sáttur og tjáði mér það í öðru hverju orði að ég væri að eyðileggja keppnistímabilið hjá honum með ákvörðun minni. Ég tjáði honum til baka að mér þætti þetta leiðinlegt en nauðsynlegt. Hann hefði séð um það sjálfur að vera rekinn úr keppni og hann ætti frekar að fara yfir það í huganum hvað hann gerði til að orsaka þessa ákvörðun mína. Eftir smástund í orðaskaki bað ég hann um að yfirgefa pyttinn ég þyrfti að halda áfram með dagskrána. Hinrik gargaði þá á mig að hann ætlaði að snúa við og ég steig aftur 2 skref þá endaði hann á að hringspóla yfir mig og nærstadda sem voru Grétar Sölvason og Magnús Ragnar og þaut í burtu. Svo kom hann til baka til mín og var ekki sáttur við ákvörðun mína. Ég talaði bara í rólegheitunum við hann og reyndi að róa hann niður en allt kom fyrir ekki og endaði Hinrik samtalið á því að ég ætti eftir að sjá eftir þessu og að þetta væri ekki búið.“
Mótshaldari sendi atvikalýsingar og greinargerð um framkvæmd mótsins til MSÍ. Stjórn MSÍ ákvað að senda viðburðarlýsingar mótshaldara til dómstólsins og óskaði eftir í skeyti þann 20. júní s.l. að dómstóllinn skoðaði:
„ … agavandamál sem upp hafa komið hjá keppanda #60 Hinrik Inga Óskarssonar. … Það er ósk stjórnar MSÍ að dómstóllinn úrskurði um viðeigandi ráðstafanir í málinu.“
Málsmeðferð:
Málsmeðferð var skv. reglum um dómstól MSÍ. Málið kom til dómsins 20. júní 2013. Ekki voru taldir formgallar á málinu og var ákveðið að Þorsteinn Hjaltason færi með málið hjá dómstólnum en Jóhann Halldórsson situr hjá við meðferð dómstólsins. Þann 20. júní s.l. var kærða send áskorun um að halda uppi vörnum í málinu. Kærði sendi greinargerð til dómsins þann 26. júní s.l. Í framhaldi að því var ákveðið að málið skyldi flutt skriflega. Dómari fór í frí þann sama dag og kom aftur úr fríi í byrjun ágúst. Í greinargerð varnaraðila er málsatvikum eins og þau eru tilgreind í skýrslu keppnisstjóra ekki mótmælt svo nokkru nemi, í greinargerðinni segir m.a.:
„Ég hef ekki miklar málsbætur fyrir framkomu Hinriks á keppnisstað hvorki vegna þessa atviks né seinna þegar hann festir sig út í braut nema það að ég horfði á þetta atvik og gat ekki séð að Hinrik hafi lagst í brautina og skapað þar með hættu eins og haldið er fram, … .“
Dómstóllinn lítur því svo á að varnaraðili mótmæli ekki atvikalýsingum meira en kemur hér fram í tilvitnaðri grein. Málið var því dómtekið.
Gögn:
Framlögð gögn eru:
1. Skýrsla keppnisstjóra
2. Rafpóstur stjórnar MSÍ þar sem málinu er vísað til dómstólsins.
3. Bréf dómstólsins til kærða dags. 20. júní 2013.
4. Greinargerð kærða
Niðurstaða:
Þar sem að öll kæruefnin eru viðurkennd í megindráttum af kærða er málsatvikalýsing eins og hún er í atvikalýsingu keppnisstjóra, lögð til grundvallar dóminum.
Dómurinn telur að kærði hafi ekki sýnt þá framkomu sem krefjast má af keppanda og hann hafi ótvírætt sýnt óíþróttamannslega framkomu, sem lýsir sér í neðangreindu:
1. Kærði átti að vera samvinnuþýður við sjúkraliða. Keppandi á að sýna kurteisi við alla á mótsstað og á það ekki síður við starfsfólk sem ráðið hefur verið til að hjálpa keppendum þegar slys verða. Það er slæmt að kærði lét þung orð falla um mótshaldara, slíkt virðingarleysi og ókurteisi er afar bagalegt, ekki síður þegar utanaðkomandi starfsfólk verður vitni að slíku.
2. Þó eitthvað bjáti á í brautinni er aldrei réttlætanlegt að vera með óhemjugang, slíkt er út í hött og getur valdið hættu. Að sýna óhorfendum ókurteisi og virðingarleysi með þeim hætti er kærði gerði er auk þess mjög slæmt.
3. Þegar keppnisstjóri tjáir keppanda ákvörðun sína skal hann taka slíku möglunarlaust. Sú hegðun kærða að rífast við keppnisstjóra er ámælisverð. Það er verulega vont að hallmæla keppnisstjóra og öskra á hann og hóta því að fara ekki að fyrirmælum. Sú hegðun að hringspóla yfir starfsmenn og nærstadda er fullkomlega út í hött. Að koma svo aftur til baka til að þræta meira við keppnisstjóra er forkastanlegt og enn verra að hafa í hótunum við keppnisstjóra.
Kærði hefur beðið keppnisstjóra afsökunar á hegðun sinni og er það til málsbóta að sýna iðrun og reyna að bæta fyrir hegðun sína.
Ofangreind framkoma kærða er alls ekki ásættanleg. Keppendur skulu ávalt koma fram af kurteisi og virðingu við alla á keppnisstað, hvort sem það eru
starfsmenn, áhorfendum eða aðrir. Undir engum kringumstæðum má þetta bregðast, ekkert getur réttlætt framkomu kærða, hún er óafsakanleg. Keppendur eiga ávalt að hlýða ákvörðunum keppnisstjóra möglunarlaust. Dómstóllinn getur ekki lagt of mikla áherslu á þessi atriði. Agi er grundvöllur þess að regla þrífist. Ekkert áhugamanna íþróttastarf þrífst ef keppendur sýna ekki öllum kurteisi og virðingu. Engir sjálfboðaliðar munu fást til starfa við slíkar kringumstæður. Ef þeir koma ekki til starfa verður ekkert félagsstarf, engar brautir, æfingar eða keppnir. Með slíkri framkomu sem fjallað er um í þessu máli er því vegið að íþróttastarfinu öllu.
Því er ljóst að kærði hefur gert sig sekan um gróf agabrot. Er því fullt tilefni til að dæma kærða strax í keppnisbann en dómstóllinn hefur ákveðið að gefa kærða tækifæri til að bæta ráð sitt. Til allra keppenda eru gerðar kröfur um háttvísi og kurteisi. Dómstóllinn gerir að sjálfsögðu þá kröfu til kærða að hann standi undir þeim kröfum en skilorðið sem dómstóllinn setur kærða á, er að ef hann bregður út af því hið minnsta næstu tvö árin verður hann strax og án frekari umsvifa settur í ótímabundið keppnisbann eða keppnisbann til ákveðins tíma, allt eftir því sem hæfilegt er. Eftirlit með skilorði mun stjórn MSÍ hafa. Ef stjórnin ákveður að skilorð hafi verið rofið þá getur stjórnin sett kærða í keppnisbann í eina umferð eða tvær í röð eða fleiri eða ótímabundið bann. Ef stjórn MSÍ setur kærða í ótímbundið bann er það í höndum stjórnar að ákveða hvaða skilyrðum kærði verði að fullnægja til að aflétta keppnisbanninu. Ef kærði stendur þá enn ekki undir skilorðinu getur stjórnin sett hann aftur í keppnisbann. Ákvörðun stjórnar MSÍ um keppnisbann einstakra keppenda er hvorki í þessu tilviki né öðrum kæranleg til dómstólsins heldur er hún endanleg.
Kærði þarf að vera algerlega til fyrirmyndar innan og utan keppnis- og æfingasvæða. Hann verður að hafa taumhald á skapi sínu og má ekki sleppa sér í reiðiköstum. Framkoma hans skal vera óaðfinnanlega á allan hátt á öllum viðburðum, sem tengjast MSÍ og mótorsporti. Þar er m.a. átt við keppni, æfingar, sýningar eða hvaðeina annað þar sem keppendur eða aðilar tengdir íþróttinni koma saman vegna íþróttarinnar, þ.e. hópurinn myndast t.d. vegna undirbúnings fyrir mót eða að aðilar eru saman eða kærði staddur á staðnum/bænum sem keppandi, t.d. farið saman á
skemmtistað, veitingastað, hótel eða annað. Ennfremur á öðrum samkomum keppenda eða fólks á vegum MSÍ eða aðildarfélaganna, t.d. árshátíðum, skemmtunum eða öðrum stöðum þar sem keppendur, stjórnarmenn og/eða starfsmenn koma saman. Ef kærði heldur þessi skilyrði næstu tvö árin kemur keppnisbann ekki til framkvæmda.
Dómstólnum finnst mikilvægt að kærða sé ljóst að staðan, sem upp er komin í hans málum, er eingöngu vegna hans eigin framferðis og framhald málsins er alfarið í hans eigin höndum. Kærði er sinnar eigin gæfu smiður og enginn annar. Það verður ekkert mótorsport til ef háttvísi og virðing er ekki sýnd, það mun enginn fást til starfa og þá verður ekkert starf, engar keppnir eða mót. Dómarinn, sem með mál þetta fer, ræddi þessi mál við kærða miðvikudaginn 7. ágúst s.l. þar sem kærði sat í stól sínum í pyttinum við motocrossbrautina á Akureyri. Kærði sagði við dómarann; „Ég þarf þá bara að haga mér eins og maður, ekkert annað?“ og dómarinn sagði: „Já hárrétt, þetta er málið í hnotskurn, það er ekkert flóknara en það.“
Dómsorð:
Kærði, Hinrik Ingi Óskarsson er dæmdur í ótímabundið keppnisbann en bannið kemur ekki til framkvæmda af hann heldur ofangreind skilyrði sem dómurinn hefur sett. Stjórn MSÍ skal sjá um framkvæmd eftirlits og banns ef til kemur, þ.m.t. ákvarða um lengd bannsins, allt eins og í dóminum segir.
Þannig fram farið
Þorsteinn Hjaltason dómari
Helgi Jóhannesson dómari