Dómur dóm- og aganefndar MSÍ.

29.9.2008

Þann 29. september 2008 var kveðinn upp dómur í dóm- og aganefnd MSÍ.

  Málavextir:

Í 5. umferð Íslandsmótsins í tvímenningi í enduro,  sem haldin var 6. september 2008,  voru báðir liðsmenn liðs nr. 7T,  þeir Ásgeir Elíasson og Árni G Gunnarsson, í brautinni í einu.    

Mótstjóri vísaði liðinu úr keppni í 5. umferð og fékk liðið því engin stig í þeirri umferð.     Liðinu,  hér eftir nefndur kærandi,    þótti refsingin fullhörð og óskaði eftir því við stjórn MSÍ að refsingin yrði endurskoðuð.      Stjórn MSÍ vísaði málinu til dóm- og aganefndar MSÍ.

  Gögn:

Málflutningur er skriflegur.     Í málinu hafa verið lagðar fram greinargerðir af hálfu kæranda og mótstjóra.

  Forsendur:

Skv.   reglu 1.2.4.   í enduroreglum MSÍ 2008  má einungis einn liðsmaður í tvímenningsliði vera í brautinni í einu.     

Í málflutningi kæranda hefur komið fram að Árni hafi talið að hjól Ásgeirs hafi bilað og þess vegna hafi hann farið út í brautina á eftir Ásgeiri.    Árni hafi talið að þetta væri heimilt og hafi hann þar ruglað saman reglum í enduromótum MSÍ og mótum sem haldin hafi verið á Klaustri.    Ekkert hefur komið fram í málinu sem véfengir þetta.    Þessi villa Árna um reglur gerir verknaðinn ekki refsilausan en skiptir máli varðandi huglæga afstöðu hans til brotsins og við ákvörðun refsingar.

 Ásgeir náði að losa hjól sitt áður en Árni kom að því,  þannig að þeir hittust aldrei í brautinni og hjálpuðust þar ekki að.     Ásgeir þurfti því að bíða eftir Árna að hann lyki sínum hring.    Liðið hagnaðist því ekki á þessu broti,   bæði þreyttist Árni við að fara aukahring sem ekki taldi í keppninni og hann hefði getað farið fyrr af stað ef hann hefði verið til staðar þegar Ásgeir lauk loksins sínum hring.       Dómurinn lítur svo á að það sé til refsilækkunar að ekki var um hagnaðarbrot að ræða.

Keppnisstjóri sinnti sínu hlutverki vel.     Uppgötvaði brotið og brást skjótt við með ákvörðun viðurlaga.     Keppnisstjóra var þetta bæði heimilt og skylt.      Dóm- og aganefnd MSÍ kemst þó að þeirri niðurstöðu að öllu ofangreindu virtu að refsingin hafi verið of hörð.   Hæfileg refsing telur dómurinn vera að ógilda þann hring sem brotið átti sér stað í.   Því dæmist rétt vera:

Dómsorð:

Þegar stig liðsins 7T eru reiknuð skal hringurinn ekki talinn með, sem báðir liðsmenn voru í brautinni í 5. umferð Íslandsmótsins í Enduro sem haldið var 6. september 2008.     Þessi hringur skal vera liðinu dauður og ógildur og ekki tekinn með í reikninginn þegar úrslit eru fundin í 5 umferð íslandsmótsins í enduro 2008.

MSÍ er falið að birta dóminn.

29. september 2008

Þorsteinn Hjaltason,   (sign)  Jóhann Halldórsson,  (sign)     Helgi Jóhannesson, (sign)