Grein eftir Kamillu Guðmundsdóttir, birt með leyfi höfundar, njótið vel.
En þar sem ég er trúleysingi þá veigra ég mér ekki við að tala aðeins um “smærra” mál sem minnir alltaf á sig á þessum árstíma en það eru bifhjólamenn og þá sérstaklega í samhengi við þá sem stunda motocross.
Jaðaríþróttir
Íþróttir eins og motocross, enduro, rallycross, kvartmíla, torfæra og fleiri líkar greinar hafa sífellt verið að sækja á hvað varðar fjölda iðkenda undanfarin ár. Í hópi þeirra sem stunda þessar íþróttir eru bæði metnaðarfullir keppnismenn og einnig þeir sem stunda þetta meira sem áhugamál, en óhætt er að segja að hópurinn spannar vítt svið enda er þetta sport sem getur hentað bæði ungum sem öldnum.
Árið 2008 var fjöldi skráðra hjóla á landinu í flokknum torfæru fjórhjól eða mótorhjól 5.550 og til samanburðar þá voru skráð 6.321 mótorhjól á landinu á hvítum númerum, þ.e. hjól sem hafa leyfi til þess að keyra í almennri umferð. Það er því greinilegt að þessi hópur er orðinn það fjölmennur að erfitt er að líta framhjá honum. En þó svo að flestum finnist bifhjólamenn vera áberandi yfir sumartímann þá vilja yfirvöld gjarnan láta eins og þessi hópur sé ekki til.
Í stuttu máli má segja að akstursíþróttir á íslandi hafi alla tíð verið litnar hornauga, misskildar, fordæmdar og fjársveltar. Þetta er hópur sem hefur mætt gífurlegu skilningsleysi bæði hjá stjórnvöldum og almenningi.
Allri aðstöðu til þess að stunda þessar íþróttir er veruleg ábótavant og þar sem ráðist hefur verið í framkvæmdir á brautum hefur þorri vinnunnar og fjármagnins verið reiddur fram af þeim sem standa að rekstri brautanna.
Vinsældakeppni
Það hefur lengi verið viðkvæðið á Íslandi að mismuna íþróttagreinum gífurlega hvað varðar fjárveitingar og styrki. Við elskum fótbolta að sjálfsögðu meira en allt og “strákarnir okkar” hafa verið sannkallaðir gullkálfar fyrir íslenskan handbolta.
Að öðrum greinum ólöstuðum þá er löngu kominn tími á að stjórnvöld fari að gæta jafnræðis þegar kemur að styrkveitingum til íþróttagreina. Það er dapurlegt að horfa upp á þessa grófu mismunum í ljósi þess að í hópi jaðaríþróttamanna á Íslandi eru ófáir góðir og efnilegir einstaklingar sem gætu hæglega haslað sér völl erlendis ef aðstaða og aðbúnaður væri viðeigandi hér á landi.
Fyrir þá sem leggja stund á motocross á Íslandi þá hlýtur að svíða sérstaklega mikið að hugsa til þeirrar staðreyndar að á landinu eru í dag u.þ.b 5.550 torfæru fjórhjól og mótorhjól skráð. Þ.e. hjól sem eru ekki ætluð til aksturs í almennri umferð.
Þeir einstaklingar sem standa í rekstri á svona hjólum dæla umtalsverðum peningum í ríkiskassann í hvert sinn sem þeir setja eldsneyti á hjólin. Þetta er í formi svokallaðs veggjalds á eldsneyti. En þar sem þessi hjól eru ekki ætluð til notkunnar á vegum landsins er þá ekki kominn tími til að ríkið fari að standa sína pligt og drýgja aðeins hlut þessa hóps, enda seint hægt að segja að hann sé ekki að skila sínu í formi skatta. Og ef ríkinu er ómögulegt að rétta hlut þessa hóps með fjárveitingum væri þá ekki tilvalið að leyfa þeim sem stunda motocross að nota litað bensín eins og gert er fyrir báta með litaðri dísel olíu, ljósavélar og fleira sem ekki er notað á vegum.
Til er greiningarflokkur hjá Hagstofu Íslands sem heitir: Vélhjólasala-Viðgerðir vélhjóla og Varahlutasala , það sem virðist vanta inn í þessa útreikninga hjá Hagstofunni við fyrstu sýn eru þeir liðir í rekstri mótorhjóla sem mest er skattlagður sem eru bensín, mótorhjóladekk sem er stór liður í rekstri mótorhjóla (að meðaltali endist afturdekk undir torfæruhjólum á bilinu 800-1400 km. og á götuhjólum 4000-6000km), hlífðarfatnaður er mjög hátt skattlagður og er nú bundið í lög að klæðast hlífðarfatnaði í almennri umferð.
Ef lagðar eru saman tölurnar á samantekt minni síðustu þrem samantektum (2005-6 og 7) þá er samanlögð tala sem mótorhjólafólk hefur borgað í skatta í ríkissjóð átta og hálfur miljarður. Þá er bara að bera þá tölu við stóra framkvæmd á vegum ríkisins og segja: “Þetta er greitt af mótorhjólafólki“.
Einnig er skuggalegt að þeir sem stunda motocross og enduro sem íþrótt hafi borgað á þrem árum 59 miljónir í skatt fyrir það eitt að vera íþróttamenn.
Úr skýrslu Hjartar L. Jónssonar frá 13. Maí 2008
Jón og séra Jón
Golfvellir, reiðsvæði og gönguleiðir eru hlutir sem okkur þykja nokkuð sjálfsagðir á deiliskipulögum bæjarfélaga. Við kippum okkur heldur ekkert sérstaklega upp við það þegar lagst er í kostnaðarsamar uppbyggingar á hinum ýmsu íþróttamannvirkjum. Jafnvel þó að við komum ekki nokkurn tíman til með að nýta okkur þau. Við teljum þetta sjálfsagan lið í uppbyggingu bæja sem eykur á flóru og framboð. En þegar umræðan snýst um að koma til móts við þennan gífurlega stóra hóp sem stundar akstursíþróttir þá er viljinn öllu minni.
Það gengur ekki að gagnrýna bifhjólamenn í sífellu sem rekja sig eftir gömlum vegslóðum um land allt og hrópa að þeir séu óvelkomnir. í flestum tilfellum eru þessir einstaklingar að reyna að finna leiðir þar sem umhverfinu er ekki raskað á nokkurn hátt og sem minnst ónæði verður af þeirra ferðum. Gallinn liggur einfaldlega í því að á meðan keppst er við að kortleggja gönguleiðir og reiðstíga víðsvegar um landið þá hefur sinnuleysið verið algert hvað varðar merktar leiðir fyrir bifhjólamenn. Þannig að í stöðunni fyrir þá er annað hvort að leggja hjólunum eða eiga alltaf á hættu að vera óvelkomnir hvert sem þeir fara.
Þetta stendur þó víst til bóta að einhverju leiti en Umhverfisráðuneytið er að leggja drög að korti þar sem þessar leiðir eru skilgreindar. En varðandi það mál eins og önnur þá hefur rödd bifhjólamanna ekki fengið mikinn hljómgrunn við það viðræðuborð þannig að þegar þessi reglugerð verður fullunninn er hætt við að hópurinn sem hún átti helst að gagnast verði ekki sáttur.
Misjafn sauður í mörgu fé
Þær staðalímyndir sem hafa fest við bifhjólamenn í gegnum tíðina hafa á heildina litið verið frekar neikvæðar. Við erum dálítið gjörn á að tengja bifhjól við Hell’s angels og álíka glæpasamtök eða vonda töffarann á mótorhjólinu sem gerir ekki annað en að afvegaleiða saklausar kirkjuræknar skólastúlkur.
Það muna eflaust einhverjir eftir ummælum Helgu Sigrúnar Harðardóttur frambjóðanda framsóknarmanna í SV kjördæmi þar sem hún lýsti því yfir að það að byggja keppnisbrautir fyrir akstursíþróttamenn væri sambærilegt því að standa að æfingasvæði fyrir nauðgara.
En það er einmitt þröngsýni og sleggjudómar af þessu tagi sem hafa verið þrándur í götu bifhjólamanna og alið á skilningsleysi og fordómum í gegnum tíðina.
Er ekki kominn tími til að við horfum jákvæðari augum á þessa íþróttagrein og hættum að láta glepjast af fáránlegum staðalímyndum sem sprottnar eru úr hugarfylgsnum amerískra leiksstjóra eða frá sleggjudómum fólks sem aldrei hefur kynnt sér íþróttina. Hingað til hefur mér a.m.k tekist að vera nokkuð fordómalaus í garð þeirra sem keyra bíla, jafnvel þó að ég viti að margir þeirra séu ökuníðingar sem valda slysum og skapa hættu. Ég vona að fleiri taki upp þetta hugarfar og átti sig á að þorri bifhjólamanna eru til sóma hvort sem er á götum borgarinnar eða innan motocrossbrauta og því er orðið löngu tímabært að taka kröfur þessa hóps til skoðunnar.

