Helgina 12. – 15. mars fór fram 30 ára afmælishátíð á Mývatni en þar var haldin sleðakeppni fyrst árið 1979 og er um einhverskonar landsmót sleðamanna að ræða. Hátíðin í ár var stórglæsileg og eiga heimamenn allir sem einn heiður skilið fyrir hreint frábært framtak. Á föstudeginum var keppt í samhliða braut á sleðum og voru mættir á ráslínu margar gamlar sem ungar kempur, Árni Grant, Gunni Hákonar, Siggi Gylfa, Villi, Tryggvi Aðalbjörns ofl. Þetta var eins og maður hefði verið sendur aftur í tímann og engu höfðu þeir gleymt, hörku keppni. Eftir að samhliða brautarkeppninni lauk var farið beint í fjallaklifur og þar var á ferðinni ein sú mesta skemmtun sem ég hef orðið vitni að í Íslensku mótorsporti, þvílíkir taktar og fjör. Finni Bóndi og Þór Kjartans á ofur Turbo græjunum sýndu flotta takta en minni sleðarnir gáfu þeim ekkert eftir og átti Stebbi Gull moment dagsins þegar hann fékk óvænt farþegi niður brekkuna (undir sleðann !).
Um kvöldið var svo sleða spyrna í flóðlýsingu og glæsileg flugeldasýning á eftir.
Keppni í Ís-Cross átti að hefjast kl. 8:00 á laugardagsmorgninum en var frestað til kl. 12:30 vegna veðurs. Þetta var 3. og síaðst umferð vetrarinns og var góð mæting og hörku keppni í öllum flokkum, Einar Sig tryggði sér Íslandsmeistaratitla í Opnum flokki og Vetrardekkja flokki en Signý varði titil sinn í Kvenna flokki.
Seinnipartinn á laugardeginum fór svo fram 2. umferð í Sno-Cross og fór hún vel fram en þar átti Bjarki #670 takta dagsins í síðustu umferð dagsins. Jonni sigraði Opna flokkinn, Árni Ásbjarnar sigraði í Unglinga flokk, Villa Dan sigraði Kvenna flokk og Ármann Sport flokkinn.
Dagurinn endaði svo með stórdansleik og mat í félagsheimilinu Skjólbrekku þar sem hljómsvitin VON skemmti og kokkarnir frá Sel hótel göldruðu fram topp hlaðborð.
Mývetningar, kærar þakkir fyrir frábæra helgi, það er bara gaman að koma í sveitina og finna fyrir því hvað við mótorsport áhugamenn erum velkomnir.
kveðja,
Karl Gunnlaugsson
Formaður MSÍ

