Alþjóða mótorhjóla sambandið, FIM hefur gefið út lista yfir gerðarviðurkenningar mótorhjóla fyrir Superbike, Supersport, Superstock 600/1000 og Formula EWC.
Til að hjól sé gjaldgengt í keppni á vegum FIM þurfa framleiðendur að framleiða og uppfylla lágmarksfjölda eintaka sem eru í boði til almennings.
Til að fá gerðarviðurkenningu (FIM homologation) þarf að framleiða hjólin í eftirfarandi fjölda:
125 eintök til að byrja gerðarviðurkenningu
250 eintök fyrir lok fyrsta keppnisárs
1000 eintök fyrir lok annars keppnisárs
Uppfylla þarf einnig tæknilega atriði er varða flokka og öryggi.
Mótorhjól sem hafa verið gerðarviðurkennd eru heimil í flokkunum í 8 ár ásamt þeim búnaði sem talinn er upp, en einstaka breytingar geta orðið óheimilar ef að flokkum er breytt.
Hérlendis er flokkaskipting með öðrum hætti en hjá FIM. Með tilkomu hringakstursbrautar Kvartmíluklúbbsins á þessu ári geta þó myndast ástæða til að taka upp flokkaskiptingu til samræmis við FIM reglur í hringakstri. Eldri hjól sem ekki er að finna á þessum lista miðast við að hafa uppfyllt reglur um gerðarviðurkenningu FIM til að vera gjaldgeng í keppni hér á landi.

