Undirritaður hefur áður á þessum vettvangi ritað pistla fyrir jólahátíðina þar sem m.a. hefur verið lögð áhersla á að takmarka efnishyggju við val á jólagjöfum til barna og ungmenna, og líta fremur til einfaldra jólagjafa sem hvetja þau til iðkunar íþrótta. Á þeim tíma var efnhagskreppa ekki í kortunum, en segja má að þeir viðburðir sem markað hafa íslenskt samfélag undanfarna mánuði undirstriki betur en flest annað slík sjónarmið. Einföldustu jólagjafirnar eru gjarnan vinsælastar og er búnaður til íþróttaiðkunar í senn það sem lengst er notað og gefur mesta ánægju – auk þess að þau verðmæti sem felast í hollri hreyfingu og góðum félagsskap við iðkun íþrótta eru verðmæti sem sannarlega verða ekki metin til fjár. Beri okkur gæfa til slíks er einfaldlega engin kreppa, enda er holl hreyfing og félagsskapur nokkuð sem ekki verður af okkur tekið þótt verðbréfamarkaður og peningamarkaðssjóðir hrynji. Það er í senn tækifæri til og nauðsyn á að efla samverustundir fjölskyldu og ættingja, vina og gamalla íþróttafélaga, samstarfsmanna og kollega. Slíkt verður vart gert betur en með félagsskap í skjóli hollrar hreyfingar. Samverustundir, félagsskapur og hreyfing er það sem eykur jákvæðni og ánægju, og vinnur gegn kvíða og streitu. Látum með því kreppuhljóminn lönd og leið. Enn ríkari ástæða er til að hvetja til aukinna samverustunda foreldra og barna – sem er eitt af gildum forvarnardags Forseta Íslands. Önnur skilaboð þess átaks er aukin þátttaka barna- og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Ég hvet foreldra og börn til að sameina þessi tvenn skilaboð með sameiginlegri hollri hreyfingu fjölskyldunnar yfir jólahátíðarnar. Ég hvet foreldra og börn til að fara saman út að skokka, skíða eða skauta – eða aðra þá hreyfingu sem aðstæður bjóða upp á…nú eða hugmyndaauðgi jólapakkanna gefur tilefni til að stunda. Ekki er með slíku hægt að lofa skammtímahagnaði fjármagns eða lækkun vísitölu – en ánægja og andleg vellíðan ættu að vera gæði sem við ávöxtum ríkulega. Ég vil fyrir mína hönd, starfsfólks og framkvæmdastjórnar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands óska öllum lesendum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ.
|