Gyða Dögg Heiðarsdóttir – akstursíþróttakona ársins 2018

29.12.2018

Gyða Dögg Heiðarsdóttir er 19 ára gömul, fædd 2. mars 1999.

Gyða Dögg byrjaði að keppa í Moto Cross 12 ára gömul. Gyða Dögg var valin akstursíþróttakona ársins 2015, 2016 og 2018. Hún náði frábærum árangri á liðnu keppnistímabili, Íslandsmeistari í kvennaflokki í Moto Cross og Enduro þolakstri.

Segðu mér aðeins frá sjálfri þér og hvers vegna þú byrjaðir í akstursíþróttum?

Ég hef búið í Þorlákshöfn síðan ég var 15 ára en þar áður bjó ég í Grindavík. Ég er ný útskrifuð af íþróttabraut úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og er á leið út í atvinnulífið.

Áhugi minn á akstursíþróttum hefur í raun og veru verið til staðar síðan ég man eftir mér. Þegar ég var lítil þá áttum við fjölskyldan jeppa og vorum mikið í fjallaferðum og var ég snemma komin í fangið á pabba undir stýri. Það má segja að áhugi minn hafi virkilega kviknað þegar ég var 10 ára og sá bleikan krossara til sölu í fréttablaðinu. Ég geymdi myndina inn í herbergi og tuðaði um krossara í tvö ár þangað til að pabbi lét loksins eftir mér og þá var ekki aftur snúið. Eftir þetta dró ég pabba inn í sportið og svo fylgdu hin tvö systkini mín á eftir.

Hvers vegna valdir þú motocross og enduro?

Frá því að ég fékk fyrsta krossarann minn þá ætlaði ég mér alltaf að keppa í motocrossi. Ætli að ástæðan fyrir því hafi ekki verið sú að þegar ég set á mig hjálminn og fer út í braut þá get ég verið algjörlega ég jálf. 

Motocross er svo ótrúlega erfið og krefjandi íþrótt en á sama tíma svo ólýsanlega skemmtileg. Ég keppti í fyrsta skiptið í enduro í sumar og var það til að byrja með aðallega til að gera mig að betri ökumanni en það kom mér mjög mikið á óvart og nýt ég mín mikið þar líka. 

Hvað þarf til að mótorhjólið sé gott í keppni?

Fyrst og fremst þarf ökumaðurinn að vera á hjóli sem honum líkar. Það skiptir líka miklu máli að hafa fjöðrunina á hjólinu rétt stillta en það fer eftir hvernig efni brautin er gerð úr, hvernig færð er, sem sagt hvort brautin er þurr, rök eða mjög blaut og einnig hvernig brautin er sett upp fyrir utan það að hafa þarf líkamsþyngd ökumanns í huga. Ekki má gleyma almennu viðhaldi sem þarf til að hjólið sé gott fyrir keppni.
Segðu mér aðeins frá markmiðum þínum og áherslum í keppni. Hvað þarf til að vinna?

Segðu mér aðeins frá markmiðum þínum og áherslum í keppni. Hvað þarf til að vinna?

Mitt stærsta markmið er að komast erlendis að keppa og hefur það verið draumurinn minn í mörg ár. Þegar kemur að keppni þá vil ég undirbúa mig rosalega vel. Þegar ég er að undirbúa mig þá æfi ég vel í brautinni þar sem næsta keppni er haldin og stúdera hana vel.

Til að ná góðum árangri í motocrossi þá þarf að vera með mikið úthald, styrk og vera í andlegu jafnvægi til að höndla pressu frá öðrum ökumönnum.

Þegar kemur að keppnisdeginum sjálfum er mjög misjafnt hvað fólki finnst best að gera en ég er með rútínu sem ég geri alltaf, hún er að vera komin snemma fyrir keppnina til að geta labbað einn til tvö hringi í brautinni og finna línurnar sem ég tel hraðastar og vil prófa. Í tímatöku prófa ég síðan línurnar og set keppnina upp.

Getur þú gefið þeim sem eru að byrja einhver góð ráð?

Þegar ég var að byrja og pabbi ákvað að fara með mig á námskeið þá lærði ég að beita mér rétt á hjólinu og þá fór mikill árangur að koma í ljós og mér leið miklu betur á hjólinu. Þess vegna myndi ég ráðleggja öllum þeim sem eru að byrja að fara á námskeið til að læra að beita sér rétt á hjólinu.

Kærar þakkir fyrir spjallið. Gangi þér sem best að ná markmiðum þínum og það verður sannarlega spennandi að fylgjast með þér á næstu árum!