Um helgina, 27. ágúst fór 5. og síðasta umferðin í motocrossi fram á keppnissvæði Vélhjólaíþróttaklúbbsins við Bolaöldu. Ingvi Björn Birgisson fór með sigur af hólmi í MxOpen og er Íslandsmeistari 2016 með fullu húsi stiga. Hann gerði sér lítið fyrir og sigraði einnig í Mx2 flokki eftir harða baráttu við Einar Sigurðsson sem varð annar. Í kvennaflokki sigraði Gyða Dögg Heiðarsdóttir eftir hörkubaráttu við Karen Arnardóttur. Í Mx-Unglingaflokki sigraði Elmar Darri Vilhelmsson og í 85 flokki varð Víðir Tristan Víðisson Íslandsmeistari 2016. Í flokki heldrimanna 40+ sigraði Ragnar Ingi Stefánsson og bætti um leið í stórt safn Íslandsmeistaratitla.
Á sunnudeginum 28. ágúst fór ennfremur fram lokaumferð í Enduro og þar var það aftur Ingvi Björn Birgisson sem tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með miklum yfirburðum. Í tvímenningi sigruðu bræðurnir Bjarki og Einar Sigurðssynir.
Með þessum keppnum lýkur Íslandsmótaröðum MSÍ motocrossi og enduro og vill sambandið þakka bæði keppnishöldurum, keppendum, áhorfendum og öllum öðrum sem komu að framkvæmd mótanna á árinu.
Lokastöðu í motocrossi og allar keppnir má sjá undir Úrslit og staða hér en einnig má benda á að á vef Mylaps tímatökukerfisins er margt skemmtilegt hægt að skoða auk tíma hvers keppanda s.s. bera saman tíma keppenda, skoða stöðu í hverjum hring og hvernig keppnin fór. http://speedhive.mylaps.com/Organizations/26184
Staðan í enduroinu eftir keppnisárið 2016 er hér

