Keppnisdagatal 2016 og ný motocross dagskra

5.1.2016

Góðan dag hjólafólk og gleðilegt nýtt ár.

Eftirfarandi er keppnisdagatal MSÍ fyrir árið 2016. Keppnisdagskráin hefst 16. apríl með Time Attack keppni hjá Kvartmíluklúbbnum, fyrsta endurokeppnin verður á Hellu 14. maí en Klausturskeppnin sem er stærsti viðburður ársins fer fram 28. maí að þessu sinni. Afmælishátíð Kvartmíluklúbbsins verður haldin dagana 4.-5. júni og á Akureyri verður mikil dagskrá, sand, drullu- og götuspyrna 15. til 18. júní í kringum Bíladaga svo eitthvað sé nefnt.
Einnig verður prófuð sú nýbreytni að keyra motocrosskeppni á laugardegi og endurokeppni á sunnudegi, fyrst á Akureyri 9. og 10. júlí og í Bolaöldu 27. og 28. ágúst. Með þessu þéttum við dagatalið lítillega og drögum úr ferðakostnaði keppenda um leið og við fáum vonandi tvær stórar keppnishelgar með með mikilli stemningu. Uppskeruhátíð MSÍ verður síðan haldin þann 8. nóvember.

Samhliða dagatalinu kynnum við ennfremur talsverðar breytingar á keppnisdagskrá í motocrossi.
Helstu breytingar eru þær að í sumar verða 85 flokkur, Mx Unglingaflokkur, Kvennaflokkur og MX2 keyrðir fyrir hádegi en MxOpen og 40+ saman eftir hádegið ásamt B-flokki en við þann flokk bætist nú C-flokkur fyrir þá sem eru minna reyndir eða að byrja keppnisferilinn.

Markmiðin með þessum breytingum eru eftirfarandi:
Styttri keppnisdagur hjá keppendum sem keppa bara í einum flokk
Keppendur geta keppt í tveimur flokkum eða 4 motoum yfir daginn t.d. í kvennaflokki fyrir hádegi og B-flokki eftir hádegi sem tvöfaldar keppnistímann og stækkar reynslubankann verulega
Styttri tími líður frá tímatöku í fyrsta moto og á milli motoa. Keppendur eiga því auðveldara með að halda sér heitum.
Nýr C-flokkur fyrir óvana keppendur ýtir vonandi undir nýliðun.
Aldursflokkar í MXOpen/40+ þar sem allir keppendur raðast sjálfkrafa í flokk eftir aldri 15-20, 20+, 30+, 40+, 50+, 60+ og geta séð stöðuna í sínum aldursflokki eftir daginn óháð keppnisflokki. Verðlaun eru ekki veitt á keppnisdag en staðan birt eftir hverja keppni og viðurkenningar verða veittar fyrir 1., 2. og 3. sæti í lok sumars. Ekki er keppt til Íslandsmeistara í aldursflokkum.

Nánari útfærslur verða settar inn í keppnisreglur MSÍ á næstu dögum.

Dagatalið og dagskrána er að finna undir Reglur

Það er von okkar að þessar breytingar bæti keppnishaldið og skili fjölgun inn í sportið í heild. Það er gaman að sjá hversu mikil gróska er í spyrnugreinunum en dagatalið hefur aldrei áður verið jafn þétt og fjölbreytt. Samhliða þessu getum við vonandi opnað nýjan vef Msí og breytingar á keppnisskráningarkerfi MSÍ sem eiga að gera fólki hægar um vik að skrá sig í klúbb og til keppni.

Gleðilegt hjólasumar

Stjórn MSÍ