Metþáttaka, uppselt á Uppskeruhátíð MSÍ

12.11.2009

Lokað hefur verið fyrir sölu á miða á Uppskeruhátíð MSÍ og eru rúmlega 170 miðar seldir. Möguleiki er á ca. 4 miðum til viðbótar en þá verður að nálgast í verslunina Moto eða hringja í Helgu S: 899-2098. Verðlaunaafhending fyrir Íslandsmeistaratitla mun fara framá þessari glæsilegu hátíð, einnig verður tilkynnt um akstursíþróttamann og konu ársins 2009 ásamt titlum fyrir bestu nýliða í MX, Enduro og MX kvenna.

Þeir sem tilnefndir eru til akstursíþróttamaður og akstursíþróttakona ársins 2009 eru eftirfarandi:

Aron Ómarsson Íslandsmeistari í MX Open, Bjarki Sigurðsson Íslandsmeistari í MX unglingaflokk, Íslandsmeistari í Snocross Sport flokk og Íslandsmeistari í Enduro tvímenning, Eyþór Reynisson yngsti keppandi sem unnið hefur Íslandsmót í MX Open og Kári Jónsson Íslandsmeistari í Enduro.

Aníta Hauksdóttir Íslandsmeistari í MX Kvennaflokk, Bryndís Einarsdóttir keppandi í Sænska meistaramótinu og keppandi í heimsmeistarakeppninni og Signý Stefánsdóttir Íslandsmeistari í Ískross Kvennaflokk og keppandi í heimsmeistarakeppninni.

Þeir sem valdir verða á Uppskeruhátíð MSÍ verða einnig fulltrúar sambandsins þegar kemur að vali á Íþróttamanni ársins 2009 í lokahófi íþróttafréttamanna og ÍSÍ sem fram fer í kringum áramótin.